INNA    HAFA SAMBAND     NÁMSVER

Search
Close this search box.
Um þessar mundir fagnar Félag náms- og stafsráðgjafa 35 ára afmæli en þann 20. október síðastliðinn voru 10 ár síðan haldið var fyrst uppá dag náms- og starfsráðgjafar á Íslandi. Á síðasta ári voru 25 ár síðan námsbraut náms- og starfsráðgjafar var stofnuð við Háskóla Íslands. 
Náms- og starfsráðgjafar starfa víða í samfélaginu svo sem með börnum og unglingum í grunn- og framhaldsskólum, með fullorðnum á háskólastigi og í símenntunarmiðstöðvum. Einnig starfa náms- og starfsráðgjafar við fræðslustörf og stjórnun hjá einkafyrirtækjum. Hér á Suðurlandi starfa um það bil 15 náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum og hjá Fræðslunetinu-símenntun á Suðurlandi.
 

Starf náms-og starfsráðgjafa er fjölbreytt. Náms- og starfsráðgjöf felst í því að liðsinna einstaklingum við að finna hæfileikum sínum, áhugasviðum og kröftum farveg. Einnig felst í starfinu að kynna fyrir einstaklingum ný störf og þróun starfa sem fylgja breytingum í nútímasamfélagi. Örar breytingar hafa orðið á vinnumarkaði og samfélagsgerð á síðustu árum og þörf eftir náms- og starfsráðgjöf hefur aukist jafnt og þétt. 
Á lífsleiðinni þurfa einstaklingar oft að taka ákvarðanir er varða nám og störf. Á leiðinni geta verið ýmsar hindranir sem þeir þurfa að takast á við. Fjölbreyttar leiðir eru í boði og nauðsynlegt er fyrir þá að hafa gott aðgengi að náms- og starfsráðgjöfum sem veita upplýsingar í þessu ákvarðanatökuferli. Sjónum er beint að styrkleikum einstaklingsins og færni og hvernig hann geti tekið upplýsta ákvörðun er varðar nám og störf.
Náms- og starfsráðgjafar eru trúnaðar- og talsmenn einstaklinga sem leita til þeirra. Mikilvægt er að einstaklingar fái aðstoð við að leita lausna ef vandi steðjar að námi þeirra eða starfi. Þeir sem leita til náms-og starfsráðgjafa eru ólíkir og búa við mismunandi aðstæður. Náms- og starfsráðgjafa ber að gæta jafnréttis og hlutleysis í starfi sínu og forðast fordóma af öllu tagi.
Eins og komið hefur fram er starf náms- og starfsráðgjafa fjölbreytt, en hér hefur aðeins verið nefnd nokkur verkefni sem þeir sinna. Náms- og starfsráðgjöf er velferðarstarf er snýr að námi, líðan og framtíðaráformum einstaklinga. Mikilvægt er að tryggja aðgang allra að náms- og starfsráðgjöf – frá bernsku til fullorðinsára.
 
Eydís Katla Guðmundsdóttir Fræðslunetið- Símenntun á Suðurlandi
Agnes Ósk Snorradóttir Fjölbrautaskóli Suðurlands
Jóhanna Einarsdóttir Sunnulækjarskóli
(Birt með góðfúslegu leyfi höfunda)