­
Starfsfólk Farskólans og Fræðslunetsins

Starfsfólk Fræðslunetsins fór í vinnuheimsókn til Farskólans á Norðurlandi vestra í liðinni viku. Megin starfsstöð Farskólans er á Sauðárkróki þar sem fundurinn fór fram. Haldin voru fróðleg erindi á báða bóga um ýmsa þætti í starfseminni, svo sem nýjungar í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir, notkun upplýsingatækninnar, tilraunaverkefni í íslenskukennslu og fleira. Að auki var starfsemi stöðvanna kynnt fyrir starfsfólkinu. Gerður var góður rómur að ferðinni sem var bæði fróðleg og skemmtileg og er starfsfólk Fræðslunetsins þakklátt fyrir afar góðar móttökur Farskólafólks og vel skipulagða dagskrá.

Íslenska I

Mikill áhugi hefur verið fyrir íslenskunámi í haust hjá Fræðslunetinu, en hátt í 200 námsmenn munu ljúka 60 stunda íslenskunámskeiðum á haustönn. Flestir stunda nám í íslensku I en einnig verða haldin nokkur námskeiði í íslensku II. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir íslenskunámið og einnig veita starfsmenntasjóðir stéttarfélaganna námsmönnum veglega styrki til námsins. 
Íslenskan er kennd víða um Suðurland, á Selfossi, í Uppsveitum og á öllum þéttbýlisstöðum austan Þjórsár, allt til Hafnar í Hornafirði. Á Selfossi sér Anna Linda Sigurðardóttir um námið og kennir einnig. Einn hópurinn í íslensku I heimsótti Pylsuvagninn á Selfossi á dögunum. Tilgangurinn var að æfa sig í að panta þennan þjóðarrétt á íslensku. Nemendur stóðu sig með stakri prýði í verkefninu. Ingunn Guðmundsdóttir eigandi Pylsuvagnsins bauð í kjölfarið öllum nemum uppá pylsur og gos og kunnum við henni bestu þakkir fyrir. 

Samstarfssamningurinn undirritaður, fv. Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, verkefnastjóri hjá Fræðslunetinu, Sveinn Aðalsteinsson,  framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Valgeir Blöndal Magnússon, framkvæmdastjóri Símeyjar, Guðjónína Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri MSS og Sólveig Hildur Björnsdóttir framkvæmdastjóri Mímis.
Fræðslunetið hefur ásamt þremur öðrum símenntunarmiðstöðvum, undirritað samstarfssamning við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, um miðlun fræðslu til fyrirtækja og starfsmanna  í ferðaþjónustu. Hæfnisetrið er tímabundið þróunarverkefni sem er vistað hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Til þess var stofnað á grundvelli skýrslu sem Stjórnstöð ferðamála gerði árið 2016, þar sem fjallað var um hæfni starfsfólks í ferðaþjónustu.
Hlutverk símenntunarmiðstöðvanna í verkefninu verður að heimsækja ferðaþjónustufyrirtæki, kynna þeim og starfsmönnum þeirra möguleika á fræðslu, fjármögnun og arðsemi af slíku starfi. Í framhaldinu verður síðan komið á markvissu fræðslustarfi innan ferðaþjónustunnar. Reynslan af þessu verkefni miðar síðan að því aðferðafræðin verði nýtt til að koma á markvissu fræðslustarfi fyrir ferðaþjónustuna á landsvísu.
Fræðslunetið mun á næstunni efna til samstarfs við nokkur ferðaþjónustufyrirtæki á Suðurlandi þar sem boðið verður uppá greiningu fræðsluþarfa og í framhaldinu gerð sérsniðin fræðsluáætlun. Árangurinn verður síðan skipulega metinn að lokinni fræðslu. Tengiliður Fræðslunetsins í verkefninu er Ottó Valur Ólafsson verkefnastjóri.
­
©2018 Fræðslunetið - símenntun á Suðurlandi | Tryggvagötu 13 800 Selfoss | sími: 560 2030 | fraedslunet@fraedslunet.is | kt. 641199-2579 | vefstjórn: steinunnosk@fraedslunet.is
Vefkökur auðvelda þér að ferðast um vefinn okkar. | Cookies make it easier for us to provide you with our services.