­
Á Hvolsvelli er afar góð aðstaða fyrir fullorðið fólk til að stunda nám af ýmsu tagi. Árið 2010 hóf Fræðslunetið formlega fasta starfssemi í húsnæði Tónlistarskóla Rangæinga að Vallarbraut 16. Þar er skrifstofa, þar sem undirrituð hefur starfsaðstöðu og rúmgóð og björt kennslustofa sem nýtt er til kennslu, próftöku og fundarhalda.
Fjarkennslu vex fiskur um hrygg
Í vetur hefur starfsemin á Hvolsvelli verið einkar blómleg. Boðið hefur verið uppá nám af ýmsu tagi, bæði í stað- og fjarkennslu. Nú stunda þrír námsmenn nám í svæðisleiðsögn og sex í skrifstofuskóla. Að auki stunda nokkrir nám á leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú, á félagsliðabrú og í Menntastoðum sem er nám til undirbúnings náms á háskólabrú. Námið er kennt í fjarkennslu en það gefur fólki á fámennari stöðum tækifæri til að stunda formlegt nám í heimabyggð.  Nám sem veitir fólki ákveðin  starfsréttindi og er mikilvægt til að efla mannauðinn á svæðinu. Hér stunda einnig nokkrir háskólanemar nám sem nýta sér aðstöðuna.

Námsframboð haustannar af einingabæru námi hjá Fræðslunetinu hefur sjaldan verið eins fjölbreytt og nú í haust. Alls er boðið upp á sex mismunandi námsbrautir og eru þær kenndar ýmist í dreif- og/eða staðnámi.  Hér ná nefna námsbrautir eins og Grunmenntaskóla, Menntastoðir og Sölu- markaðs- og rekstrarnám. Einnig fór af stað í september sl. nám í svæðisleiðsögn í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi. Námsmenn koma víða að af Suðurlandi enda er starfssvæði Fræðslunetsins víðfeðmt, eða allt frá Þorlákshöfn til Hafnar í Hornafirði.

Um þessar mundir fagnar Félag náms- og stafsráðgjafa 35 ára afmæli en þann 20. október síðastliðinn voru 10 ár síðan haldið var fyrst uppá dag náms- og starfsráðgjafar á Íslandi. Á síðasta ári voru 25 ár síðan námsbraut náms- og starfsráðgjafar var stofnuð við Háskóla Íslands. 
Náms- og starfsráðgjafar starfa víða í samfélaginu svo sem með börnum og unglingum í grunn- og framhaldsskólum, með fullorðnum á háskólastigi og í símenntunarmiðstöðvum. Einnig starfa náms- og starfsráðgjafar við fræðslustörf og stjórnun hjá einkafyrirtækjum. Hér á Suðurlandi starfa um það bil 15 náms- og starfsráðgjafar í grunn- og framhaldsskólum og hjá Fræðslunetinu-símenntun á Suðurlandi.
 

­
©2018 Fræðslunetið - símenntun á Suðurlandi | Tryggvagötu 13 800 Selfoss | sími: 560 2030 | fraedslunet@fraedslunet.is | kt. 641199-2579 | vefstjórn: steinunnosk@fraedslunet.is
Vefkökur auðvelda þér að ferðast um vefinn okkar. | Cookies make it easier for us to provide you with our services.