­
Guðjónína Sæmundsdóttir formaður Kvasis
Guðjónína Sæmundsdóttir formaður Kvasis, samtaka símenntunarmiðstöðva skrifar:
Í mörgum tilfellum er það stórt skref fyrir fólk sem hefur ekki lokið formlegri framhaldsskólagöngu að setjast aftur á skólabekk og sækja sér aukna menntun. Ótal spurningar vakna, eins og t.d.; „á ég eitthvert erindi á skólabekk eftir öll þessi ár?“ eða „ræð ég nokkuð við þetta verkefni?“
Þetta eru fullkomlega eðlilegar spurningar. Það gleðilega er að nær undantekningalaust er fólk sem lætur verða af því að sækja sér aukna þekkingu fullt þakklætis fyrir að hafa tekið skrefið. Það er líka ánægjulegt að í fjölmörgum tilfellum er þetta skref aðeins rifa á glugga inn í heim tækifæra sem fólk nýtir sér síðan í framhaldinu.

Á Hvolsvelli er afar góð aðstaða fyrir fullorðið fólk til að stunda nám af ýmsu tagi. Árið 2010 hóf Fræðslunetið formlega fasta starfssemi í húsnæði Tónlistarskóla Rangæinga að Vallarbraut 16. Þar er skrifstofa, þar sem undirrituð hefur starfsaðstöðu og rúmgóð og björt kennslustofa sem nýtt er til kennslu, próftöku og fundarhalda.
Fjarkennslu vex fiskur um hrygg
Í vetur hefur starfsemin á Hvolsvelli verið einkar blómleg. Boðið hefur verið uppá nám af ýmsu tagi, bæði í stað- og fjarkennslu. Nú stunda þrír námsmenn nám í svæðisleiðsögn og sex í skrifstofuskóla. Að auki stunda nokkrir nám á leikskóla- og stuðningsfulltrúabrú, á félagsliðabrú og í Menntastoðum sem er nám til undirbúnings náms á háskólabrú. Námið er kennt í fjarkennslu en það gefur fólki á fámennari stöðum tækifæri til að stunda formlegt nám í heimabyggð.  Nám sem veitir fólki ákveðin  starfsréttindi og er mikilvægt til að efla mannauðinn á svæðinu. Hér stunda einnig nokkrir háskólanemar nám sem nýta sér aðstöðuna.

Námsframboð haustannar af einingabæru námi hjá Fræðslunetinu hefur sjaldan verið eins fjölbreytt og nú í haust. Alls er boðið upp á sex mismunandi námsbrautir og eru þær kenndar ýmist í dreif- og/eða staðnámi.  Hér ná nefna námsbrautir eins og Grunmenntaskóla, Menntastoðir og Sölu- markaðs- og rekstrarnám. Einnig fór af stað í september sl. nám í svæðisleiðsögn í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi. Námsmenn koma víða að af Suðurlandi enda er starfssvæði Fræðslunetsins víðfeðmt, eða allt frá Þorlákshöfn til Hafnar í Hornafirði.

­
©2018 Fræðslunetið - símenntun á Suðurlandi | Tryggvagötu 13 800 Selfoss | sími: 560 2030 | fraedslunet@fraedslunet.is | kt. 641199-2579 | vefstjórn: steinunnosk@fraedslunet.is

Við notum vafrakökur á vefsíðu okkar, m.a. til að bæta notendaupplifun. Þú ákveður hvort þú vilt leyfa smákökur eða ekki. We use cookies on our website. Some of them are essential for the operation of the site, while others help us to improve this site and the user experience (tracking cookies). You can decide for yourself whether you want to allow cookies or not. Please note that if you reject them, you may not be able to use all the functionalities of the site.