Námskeiðinu Íslenska 2 á vegum Fræðslunetsins símenntunar á Suðurlandi í Vík í Mýrdal lauk í síðustu viku með skemmtilegri opinni spjallstund þar íslenskumælandi íbúum var boðið í spjall við nemendur námskeiðisins. Þátttaka var mjög góð en nokkrir nemendur höfðu ekki tök á að mæta á staðinn og tóki því þátt í gegnum netið. Spjallstundin gekk virkilega vel og fór í raun fram úr björtustu vonum. Það er mikilvægt að skapa tækifæri fyrir nemendur til að æfa það sem fengist er við í kennslustofunni í raunverulegum aðstæðum, en samt með stuðningi. Með það að leiðarljósi tókum við spjallstundina út úr kennslustofunni og fengum inni í Kjallaranum í Suður-Vík sem var alveg frábær umgjörð. Þetta var skemmtileg stund fyrir alla sem tóku þátt, sumir voru að hittast í fyrsta skipti og það skapaðist virkilega góð stemmning.
Spjallstundin er hluti af samstarfi við Kötlusetur í Vík sem miðar að því að virkja og styrkja nærumhverfið í að verða eins konar framlenging á kennslustofunni, tengja ólíka hópa samfélagsins og að auka tækifæri nemenda til að æfa íslenskuna. Fyrr í vetur fóru nemendur í vettvangsferð í matvöruverslun sem tókst einnig mjög vel.
Höfundur er Þuríður Lilja Valtýsdóttir sem var kennari námskeiðsins.
- Details:
Þann 12. janúar fór fram hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands fyrir árið 2022. Fundurinn var nú, í fyrsta skipti eftir Covid, haldinn með hefðbundnum hætti í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands. Meginefni fundarins var að úthluta styrkjum til rannsóknarstarfs á Suðurlandi. Umsækjendur um styrki voru fimm þetta árið og voru þrír þeirra styrktir um samtals 1.600.000 kr. Það var Sveinn Aðalsteinsson sem kynnti niðurstöður stjórnar sjóðsins og forseti Íslands Hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti styrkina.
Fræðslunetið óskar styrkþegum innilega til hamingju með styrkina og þakkar öllum þeim fjölmörgu bakhjörlum á Suðurlandi sem standa að sjóðnum fyrir stuðninginn í gegnum árin.
- Details:
Mánudaginn 16. janúar síðastliðinn kynnti Sólveig Hildur Björnsdóttir, formaður Símenntar - samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, ráðherranefnd um íslenska tungu hugmyndir félagsins um tækifæri og leiðir til að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga. Þá sótti Sólborg Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Mími, fundinn með Sólveigu. Hér má lesa fréttina í heild (sótt af vefsíðu Mímis 23. janúar 2023)
- Details: