Spjallað við innfædda í lok íslenskunámskeiðs

Námskeiðinu Íslenska 2 á vegum Fræðslunetsins símenntunar á Suðurlandi í Vík í Mýrdal lauk í síðustu viku með skemmtilegri opinni spjallstund þar íslenskumælandi íbúum var boðið í spjall við nemendur námskeiðisins. Þátttaka var mjög góð en nokkrir nemendur höfðu ekki tök á að mæta á staðinn og tóki því þátt í gegnum netið. Spjallstundin gekk virkilega vel og fór í raun fram úr björtustu vonum. Það er mikilvægt að skapa tækifæri fyrir nemendur til að æfa það sem fengist er við í kennslustofunni í raunverulegum aðstæðum, en samt með stuðningi. Með það að leiðarljósi tókum við spjallstundina út úr kennslustofunni og fengum inni í Kjallaranum í Suður-Vík sem var alveg frábær umgjörð. Þetta var skemmtileg stund fyrir alla sem tóku þátt, sumir voru að hittast í fyrsta skipti og það skapaðist virkilega góð stemmning.
Spjallstundin er hluti af samstarfi við Kötlusetur í Vík sem miðar að því að virkja og styrkja nærumhverfið í að verða eins konar framlenging á kennslustofunni, tengja ólíka hópa samfélagsins og að auka tækifæri nemenda til að æfa íslenskuna. Fyrr í vetur fóru nemendur í vettvangsferð í matvöruverslun sem tókst einnig mjög vel.
Höfundur er Þuríður Lilja Valtýsdóttir sem var kennari námskeiðsins.
- Details
„Snjalltækin okkar“, námskeið fyrir eldra fólk

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið undirritaði fyrr á þessu ári samning við Fræðslunetið um kennslu í tölvulæsi fyrir eldra fólk í kjölfar útboðs Ríkiskaupa. Um er að ræða sérsniðna kennslu sem hjálpar eldra fólki á Suðurlandi að nýta sér þjónustu og rafræn samskipti á netinu með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun, njóta afþreyingar á netinu og auka notkun á þjónustusíðum. Fræðslunetið kallar þessi námskeið „Snjalltækin okkar“ og hófst kennslan sl. vor og lýkur í mars á næsta ári. Það er tölvunarfræðingurinn Bjarni Hlynur Ásbjörnsson sem sér um kennsluna og hefur hann ferðast víða um fjórðunginn vegna þessa. Hvert námskeið er í fjögur skipti, tvær klukkustundir í senn.
Markhópurinn er fólk eldra en 60 ára sem hefur þörf á að læra á snjalltæki, spjaldtölvu og/eða snjallsíma. Námskeiðin fela í sér kennslu í notkun rafrænna skilríkja, heimabanka, netverslun og fræðslu vegna samfélagsmiðla og efnisveitna. Þá verður farið yfir notkun á tölvupósti og önnur rafræn samskipti. Bæði er lögð áhersla á hagnýtt gildi sem og skemmtana gildi tækjanna.
Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í námskeiðunum geta haft samband við Fræðslunetið í síma 560 2030 eða með tölvupósti This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
- Details
Útskriftir vorið 2022

Útskrifir úr námi hjá Fræðslunetinu fóru fram á Hótel Selfossi og í Nýheimum á Höfn í byrjun júní. Alls útskrifuðust 92 námsmenn, 45 úr raunfærnimati og 47 úr námi af margvíslegu tagi, s.s. Menntastoðum, Leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabraut, Félagsliðagátt, Almennri starfshæfni, Skrefinu o.fl.
- Details