­
Sigríður Jónsdóttir og Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir
Þann 11. janúar síðastliðinn voru veittir styrkir til náms úr Vísinda- og rannsóknarsjóði Suðurlands.  Styrkþegar að þessu sinni voru tveir og fengu hvor um sig 750.000 kr.  Annarsvegar var það Sigríður Jónsdóttir til að vinna að MA verkefni sínu "Beittar uppgræðslur á hálendi Íslands, reynsla bænda, aðferðir og árangur".  Markmið verkefnis hennar er að afla þekkingar meðal bænda, sem hafa unnið að uppgræðslu á hálendinu, til að geta nýtt og miðlað þekkingu þeirra á skilvirkari hátt en nú er gert.  Hinsvegar fékk Sigrún Inga Sigurgeirsdóttir styrk til að vinna að MA verkefni sínu "Málefni Breiðamerkursands og evrópski landslagssáttmálinn". Markmið verkefnis hennar er að kanna hvaða áhrif evrópski landslagssáttmálinn gæti haft á málefni Breiðamerkusands. Styrkurinn var afhentur af forseta Íslands herra Guðna Th. Jóhannessyni á hátíðarfundi Fræðslunetsins sem haldinn var í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands þann 11. janúar 2018.
Starfsfólk Farskólans og Fræðslunetsins

Starfsfólk Fræðslunetsins fór í vinnuheimsókn til Farskólans á Norðurlandi vestra í liðinni viku. Megin starfsstöð Farskólans er á Sauðárkróki þar sem fundurinn fór fram. Haldin voru fróðleg erindi á báða bóga um ýmsa þætti í starfseminni, svo sem nýjungar í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir, notkun upplýsingatækninnar, tilraunaverkefni í íslenskukennslu og fleira. Að auki var starfsemi stöðvanna kynnt fyrir starfsfólkinu. Gerður var góður rómur að ferðinni sem var bæði fróðleg og skemmtileg og er starfsfólk Fræðslunetsins þakklátt fyrir afar góðar móttökur Farskólafólks og vel skipulagða dagskrá.

Íslenska I

Mikill áhugi hefur verið fyrir íslenskunámi í haust hjá Fræðslunetinu, en hátt í 200 námsmenn munu ljúka 60 stunda íslenskunámskeiðum á haustönn. Flestir stunda nám í íslensku I en einnig verða haldin nokkur námskeiði í íslensku II. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir íslenskunámið og einnig veita starfsmenntasjóðir stéttarfélaganna námsmönnum veglega styrki til námsins. 
Íslenskan er kennd víða um Suðurland, á Selfossi, í Uppsveitum og á öllum þéttbýlisstöðum austan Þjórsár, allt til Hafnar í Hornafirði. Á Selfossi sér Anna Linda Sigurðardóttir um námið og kennir einnig. Einn hópurinn í íslensku I heimsótti Pylsuvagninn á Selfossi á dögunum. Tilgangurinn var að æfa sig í að panta þennan þjóðarrétt á íslensku. Nemendur stóðu sig með stakri prýði í verkefninu. Ingunn Guðmundsdóttir eigandi Pylsuvagnsins bauð í kjölfarið öllum nemum uppá pylsur og gos og kunnum við henni bestu þakkir fyrir. 

­
©2018 Fræðslunetið - símenntun á Suðurlandi | Tryggvagötu 13 800 Selfoss | sími: 560 2030 | fraedslunet@fraedslunet.is | kt. 641199-2579 | vefstjórn: steinunnosk@fraedslunet.is